Guðleysingjavikan 17. til 23. mars

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

18/03/2013

18. 3. 2013

Dagarnir 17. til 23. mars eru A vikan í ár (‘A’ Week 2013). „A“ stendur fyrir atheist. Þetta er sem sagt guðleysisvika. Átakið felst þó í litlu öðru en að guðleysingjar séu með A week-skjöld sem prófílmynd á Fésbók í viku til að auglýsa guðleysi sitt. Á vefborðanum í ár segir auk þess „góð/ur án guða“ […]

Dagarnir 17. til 23. mars eru A vikan í ár (‘A’ Week 2013). „A“ stendur fyrir atheist. Þetta er sem sagt guðleysisvika. Átakið felst þó í litlu öðru en að guðleysingjar séu með A week-skjöld sem prófílmynd á Fésbók í viku til að auglýsa guðleysi sitt. Á vefborðanum í ár segir auk þess „góð/ur án guða“ (good without gods), svo það er líka verið að minna á að gott siðferði er ekki háð trúarlegum kennisetningum.

549948_10151578249184813_1696834745_n

Ég tek þátt í A vikunni þegar ég man eftir því. Það er þó ekki af því að það þurfi að minna neinn sem þekkir mig Fésbók á að ég sé guðlaus og að ég telji siðferði ekki þarfnast trúarbragða. Það vita allir sem þekkja mig. Það er heldur ekki af því að allir guðlausu vinir mínir séu með í átakinu og ég vilji ekki vera eftirbátur þeirra, flestir eru það einmitt ekki. Af hverju er ég þá að því?

Ég er að því að hluta til að sýna vott af samhug með guðleysingjum í löndum þar sem það er erfitt og jafnvel hættulegt að vera guðleysingi, en vegna þess að ég á fáa eða enga vini frá slíkum löndum er þátttaka mín á Fésbók ósköp merkingarlítil hvað það snertir. Aðallega er ég því líklega að því af því að mér finnst það skemmtilegt.  Mér finnst skemmtilegt að spá í heimspeki þess að trúa og trúa ekki og mér finnst áhugavert að skoða eigin tilfinningar til þess að hengja þennan merkimiða á sjálfan mig og rifja upp að þrátt fyrir allt er enn til fólk sem fussar og sveiar yfir borgaralegum fermingum og getur jafnvel ekki sett sig inn í hugmyndina um að trúa ekki á guð af einhverju tagi.

Það má þó auðvitað færa fyrir því rök að fólk eigi að fækka merkimiðum en ekki fjölga þeim; að það sé gæfulegra að draga úr notkun miða sem greinir fólk að en að búa til þema-viku þeim til heiðurs og hvetja með því til karps og sundurlyndis. Það held ég hinsvegar að sé hugmynd sem ágætt er að staldra við og skoða, því á þessum upplýsingavæddu tímum er aðgengi fólks að ismum sem það getur kennt sig við meira en nokkru sinni áður í mannkynssögunni og mörg höfum við tilhneigingu til að reyna að staðsetja okkur einhvers staðar í flórunni. Hvetur það endilega til karps og sundurlyndis?

Ég held að við hljótum að eiga að stefna að því að sleppa karpi og sundurlyndi án þess að hætta að hafa skoðanir, því getan til að hafa ástríðufullar skoðanir er mikilvæg og leiðin er því ekki að fækka merkimiðum, heldur að kunna að hafa gaman af að ræða það sem þeir standa fyrir, hvað sem það kann að vera. Til að það gerist þarf fólk að þora að auglýsa skoðanir sínar og þora að hengja fingurbjörg af tilfinningum í þær – þrátt fyrir að búast megi við að þær þoli ekki allar gagnrýni.

A-vikan er fremur táknræn á Íslandi dagsins í dag, en mér finnst samt gaman að minna sjálfan mig og aðra á að ég hafi eytt púðri í að mynda mér þá skoðun að ég sé guðleysingi og vona auðvitað innst inni að einhver vindi sér í að rökræða þá afstöðu við mig eða gagnrýna. En nenni því enginn er það í góðu lagi, því A-ið er einmitt líka ágætur minnisvarða um hve vel hefur tekist að venja fjöldann við guðleysið og það var m.a. viljinn til að hafa skoðanir og bera merkimiða sem áorkaði því.

Deildu