Má fólk ekki hafa skoðanir?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/09/2013

28. 9. 2013

Ræða flutt á mannréttindahátíðinni Glæstar vonir laugardaginn 28. september 2013. Þegar Siðmennt var boðið að taka þátt í þessum ágæta viðburði tók ég það að mér að koma fyrir hönd félagsins og segja nokkur orð. Ég var viss um að ég hefði margt að segja og gæti örugglega talað í klukkutíma. Svo settist ég niður […]

Franklin Graham 2Ræða flutt á mannréttindahátíðinni Glæstar vonir laugardaginn 28. september 2013.

Þegar Siðmennt var boðið að taka þátt í þessum ágæta viðburði tók ég það að mér að koma fyrir hönd félagsins og segja nokkur orð. Ég var viss um að ég hefði margt að segja og gæti örugglega talað í klukkutíma.

Svo settist ég niður og byrjaði að flokka hugsanir mínar og setja þær á blað.

Niðurstaðan var ein setning:

„Siðmennt, félag siðrænna húmanista, styður, og hefur alltaf stutt, sjálfsagða mannréttindabaráttu hinsegin fólks og mótmælir fordómum í garð þeirra.“

Í fljótu bragði datt mér ekkert meira í hug. Ástæðan er sú að hjá Siðmennt hefur stuðningurinn við réttindi hinsegin fólks alltaf verið svo sjálfsagður að maður á nánast erfitt með að segja eitthvað meira um málið.

En það eru þó einkum tvær ástæður fyrir því að Siðmennt hefur gagnrýnt sérstaklega þann viðburð sem kallaður er „Hátíð vonar“ og fer nú fram í Laugardalshöll.

Í fyrsta lagi er helsti predikarinn, Franklin Graham, og skoðanasystkini hans þekkt fyrir fordóma og fordóma ber að gagnrýna.

Í öðru lagi gagnrýnir Siðmennt að Þjóðkirkjan taki þátt í þessari hátíð.  Meira um það síðar.

Byrjum á fyrri ástæðunni. Fordómum Graham.

Franklin Graham er þekktur í Bandaríkjunum og víðs vegar um heim fyrir fordómafullar skoðanir sínar á ýmsum málum. Þar á meðal afar fordómafullar skoðanir gagnvart hinsegin fólki.

Graham telur að samkynhneigð sé synd og hún sé beinlínis hættuleg samfélögum.

Hann er algerlega á móti lögum sem heimila giftingar samkynhneigðra vegna þess að Guð hans fordæmir slík sambönd.

Samkvæmt Graham er það Guð sem skilgreinir hjónabandið sem samband manns og konu. Ekki samband tveggja kvenna eða tveggja karla.

Því er ekki pláss fyrir hjónabönd samkynhneigðra.

Réttindi hinsegin fólks eru semsagt ekki Guði hans þóknanleg.

Vandinn við þessar skoðanir Graham er ekki aðeins að þær eru byggðar á sandi. Á blindri og órökstuddri trú á gamla bókstafi.

Nei, helsti vandinn við skoðanir Graham er að þær eru meiðandi og draga úr lífsgæðum fólks. Þær ýta undir andúð og fordóma og þær ala á sundrungu.

Og til hvers? Af hverju? Af því að túlkun hans á Biblíunni segir að þannig eigi það að vera.

Finnst einhverjum hér að það sé ásættanleg ástæða eða rökstuðningur fyrir skertum mannréttindum hinsegin fólks eða annarra þjóðfélagshópa? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Okkur ber öllum að mótmæla slíkum órökstuddum skoðunum.

Barátta hinsegin fólks fyrir grundvallarmannréttindum og umburðarlyndi hefur verið löng og ströng og er hvergi nærri lokið.

Enn er til fólk á öllum aldri sem á erfitt með að koma út úr skápnum og sætta sig við kynhneigð sína vegna fordóma í samfélaginu.  Þessu fólki líður oft illa. Jafnvel mjög illa. Afleiðingar fordóma geta verið, og eru oft, grafalvarlegar.

Sumir í þessari stöðu hlusta á menn eins og Graham og hugsa með sér „er ég syndugur?“, „er kynhneigð mín hættuleg samfélaginu?“

Að öllum líkindum eru nokkrir einstaklingar á samkomunni í Laugardalshöllinni á þessari stundu sem eru hinsegin, eða eiga ástvini sem eru það, og velta þessu fyrir sér.

Þeirra vegna verður að gagnrýna og afhjúpa þessa fordóma.

En má þetta fólk ekki hafa skoðanir? Spyrja margir.

Það er bjargföst skoðun mín, og okkar í Siðmennt, að það eigi alls ekki að banna Graham og skoðanabræðrum hans að tjá sig. Allir eiga rétt á að hafa sínar skoðanir. Enginn á þó rétt á því að hafa skoðanir í friði fyrir gagnrýni.

Þá skiptir engu máli hvort skoðanirnar eru settar fram í nafni trúarbragða eða annarra hugmyndakerfa. Trúarskoðanir eru nefnilega ekkert „heilagari“ en aðrar skoðanir.

Það sem skiptir máli er að skoðanir Graham meiða og það algjörlega að óþörfu.

Munum að það eru engin vísindi eða djúp þekking á bak við sannfæringu Graham og enginn siðferðilegur grunnur heldur. Aðeins blind trú.

Munum um leið að með þessum algjörlega órökstuddu skoðunum sínum skaðar Graham saklaust fólk.

Þess vegna er svo mikilvægt að mótmæla orðum hans og fordómum eins og við erum að gera hér í dag.

Og þá að seinni ástæðunni.

Siðmennt gerir einnig athugasemd við það að Þjóðkirkja Íslands taki þátt í Hátíð vonar með beinum eða óbeinum hætti.

Eins og þið vitið nýtur Þjóðkirkjan sérstakrar verndar í stjórnarskrá og er fjármögnuð að miklu leyti með opinberum fjármunum.

Á tyllidögum réttlæta talsmenn Þjóðkirkjunnar sérstöðu sína með því að kirkjan sé fyrir alla. Því skýtur skökku við að sama kirkja taki þátt í samkomu með manni sem beinlínis talar gegn réttindum annarra.

Það var óviðeigandi hjá Þjóðkirkjunni að auglýsa samkomu með Franklin Graham í sömu viku og Hinsegin dagar voru haldnir í Reykjavík.

Og það er óviðeigandi að biskup Þjóðkirkjunnar taki virkan þátt í samkomu með manni sem beinlínis berst gegn mannréttindum.

Á meðan ríki og kirkja eru ekki aðskilin og einn trúarsöfnuður nýtur sérstaks stuðnings frá hinu opinbera er eðlilegt að gera sérstakar kröfur til þess safnaðar.

Siðmennt gerir einfaldlega þá kröfu að stjórnarskrárvernduð Þjóðkirkja tali ekki með neinum hætti gegn mannréttindum.

Sigurður Hólm Gunnarsson
Stjórnarmaður í Siðmennt

Ítarefni:

Deildu