Vísindi og kukl

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/11/2013

12. 11. 2013

Svanur Sigurbjörnsson, læknir, birti ágætan fyrirlestur sinn um hjávísindi í heilbrigðisþjónustu hér á Skoðun fyrir nokkrum dögum. Eins og alltaf bregðast einhverjir illa við og benda á að læknar og lyfjafyrirtæki geti líka haft rangt fyrir sér og að sum úrræði læknavísindana virki ekki heldur (sjá t.d. pistil Hörpu Hreinsdóttur). Það er í sjálfu sér […]

crystalSvanur Sigurbjörnsson, læknir, birti ágætan fyrirlestur sinn um hjávísindi í heilbrigðisþjónustu hér á Skoðun fyrir nokkrum dögum. Eins og alltaf bregðast einhverjir illa við og benda á að læknar og lyfjafyrirtæki geti líka haft rangt fyrir sér og að sum úrræði læknavísindana virki ekki heldur (sjá t.d. pistil Hörpu Hreinsdóttur).

Það er í sjálfu sér rétt. Þekking okkar á orsökum margra sjúkdóma er í mörgum tilfellum vægast sagt takmörkuð. Ekki síst þegar kemur að geðsjúkdómum. Þetta hef ég nú sjálfur meðal annars bent á hér á Skoðun (Sjá t.d.: Saga geðlækninga – pyntingar, töframeðul, lyflækningar og mannúð).

Sú staðreynd að vísindamenn hafa oft rangt fyrir sér og að sum lyfjafyrirtæki reyni að græða á fólki með því að selja lyf sem hafa takmarkaða virkni réttlætir þó alls ekki sérstakt umburðarlyndi gagnvart hjávísindum.

Besta leiðin til að berjast gegn slæmum vísindum og hjálækningum felst í meiri og betri vísindum. Lausnina er ekki að finna í gervivísindum eða þekkingafræðilegri afstæðishyggju þar sem öll þekking er talan jafn góð og gild.

Það er mjög mikilvægt að benda fólki skaðlegar afleiðingar hjávísinda eins og Svanur gerir í sinni grein. Ekki er hægt að réttlæta fáfræði og kukl með þeim rökum að þekking vísindamanna sé ekki fullkomin eða með því að til sé óheiðarlegt eða óvandvirkt fólk sem starfar í hefðbundinni heilbrigðisþjónustu.

Svo lengi sem meðferðin er vísindalega sannprófuð…

Það þarf að efla vísindi og rannsóknir á sem flestum aðferðum og nýta allar þær aðferðir sem sannarlega virka.

Mér er alveg sama hvort meðferð í heilbrigðisþjónustu gengur út á pilluát, skurðaðgerðir, orkukristala, heilun, grasalækningar, geðlækningar, líkamsrækt, lithimnulestra eða  út á reglulegan lestur á greinum á Skoðun.is (fyrir vægt gjald!). Það eina sem ég vil vita er hvort búið er að rannsaka meðferðina, hvort hún sé örugg og hvort hún virki umfram lyfleysuáhrif.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að gagnrýna allar aðferðir og gera þá kröfu að þau meðferðaúrræði sem niðurgreidd eru með skattfé séu sannprófuð og gagnreynd.

Deildu