Bankaskatturinn og forsendubresturinn

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/12/2013

3. 12. 2013

Boðaður bankaskattur hefur vakið upp nokkrar spurningar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að fjármálastarfsemin í landinu hefur valdið gríðarlegum kostnaði. „Ekki bara fyrir ríkissjóð, heldur líka fyrir heimilin og atvinnustarfsemina almennt.“ Þannig réttlætir fjármálaráðherra hærri skatt á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Ég er sammála Bjarna. Það er kominn tími til þess að fjármálafyrirtækin taki einhverja […]

peningar2Boðaður bankaskattur hefur vakið upp nokkrar spurningar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að fjármálastarfsemin í landinu hefur valdið gríðarlegum kostnaði.

„Ekki bara fyrir ríkissjóð, heldur líka fyrir heimilin og atvinnustarfsemina almennt.“

Þannig réttlætir fjármálaráðherra hærri skatt á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Ég er sammála Bjarna. Það er kominn tími til þess að fjármálafyrirtækin taki einhverja ábyrgð á hruninu.

Ef hægt er að skattleggja fjármálafyrirtæki til að bæta almenningi tjónið vegna hrunsins er það aldeilis frábært. Félagslega þenkjandi fólk hefur oftast verið hlynnt því að hækka skatta á fyrirtæki og stóreignafólk til að bæta stöðu hinn verst settu.

Ég geri þó alvarlega athugasemd við að einblínt sé á þá sem skulda húsnæðislán. Það er gríðarlega ósanngjarnt.

Vitna ég aftur í fjármálaráðherra:

„Með viðlíka hætti og heimilin, atvinnulífið og aðrir hafa þurft að gera að undanförnum árum en það er hægt að áætla að þegar gjaldfærður kostnaður ríkisins sé að minnsta kosti 200 milljarðar sem bein afleiðing af falli fjármálafyrirtækjanna haustið 2008 og með hærri bankaskatti þá náum við til baka hluta af þeim kostnaði og komumst líka í færi til þess að verja afkomu ríkissjóðs þrátt fyrir aðgerðir af þessum toga.“

Hvað með Landspítalann, RÚV og aðra almannaþjónustu?

Vegna hrunsins og forsendubrestsins hefur verið ráðist í mikinn niðurskurð hjá hinu opinbera og enn frekari niðurskurður boðaður. Niðurskurður er, að sögn stjórnvalda, nauðsynlegur.  Ekki er hægt að byggja nýjan Landspítala eða fjármagna rekstur hans af myndarskap því hér varð hrun. Það þarf víst líka nauðsynlega að hagræða gríðarlega hjá RÚV því hér varð hrun. Sama má segja um margar aðrar opinberar stofnanir. Flestar í „nauðsynlegu“ fjársvelti því hér varð hrun.

Nú spyr ég og vísa í orð fjármálaráðherra. Er ekki eðlilegt ná til baka „hluta af þeim kostnaði“ sem hefur kallað á gríðarlega hagræðingu hjá hinu opinbera með hærri bankaskatti? Þannig væri hægt að koma í veg fyrir allan þennan niðurskurð í opinberri þjónustu.

Hvað með námslánin, leigjendur, öryrkja og launafólk?

Vegna hrunsins og forsendubrestsins má varla hækka laun eða persónuafsláttinn. Við verðum að spara og fara varlega. Leigjendur sitja uppi með hærri leigu og kaupmáttarrýrnun því  hér varð hrun. Þeir sem skulda námslán þurfa að þola að verðtryggð lán þeirra hafa hækkað því hér varð hrun. Ekki er hægt að bæta kjör öryrkja enda ríkissjóður tómur því hér varð hrun.

Ég spyr því líka, og vísa enn og aftur í orð fjármálaráðherra. Má ekki ná til baka „hluta af þeim kostnaði“ sem fallið hefur á námsmenn, leigjendur, öryrkja og venjulegt launafólk með því að skattleggja bankana enn frekar?

Munum að forsendubresturinn er víða.  Getur það verið að það sé bara hægt að hækka skatta á fjármálafyrirtæki til að leiðrétta hlut þeirra sem skulda í fasteign?

Hvernig stendur á því?

Deildu