Mikilvægi veraldlegra athafna Siðmenntar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/01/2014

16. 1. 2014

Eins og fram kemur í fréttatilkynningu frá Siðmennt í dag er metþátttaka í borgaralegri fermingu. Þrjúhundruð börn munu fermast hjá Siðmennt árið 2014. Fjöldi fermingarbarna hefur tvöfaldast á fimm árum og þrefaldast á tíu árum. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir veraldlegum útförum, giftingum og nafngjöfum aukist mikið. Aukin eftirspurn eftir faglegum veraldlegum athöfnum við […]

Siðmennt giftingEins og fram kemur í fréttatilkynningu frá Siðmennt í dag er metþátttaka í borgaralegri fermingu. Þrjúhundruð börn munu fermast hjá Siðmennt árið 2014. Fjöldi fermingarbarna hefur tvöfaldast á fimm árum og þrefaldast á tíu árum. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir veraldlegum útförum, giftingum og nafngjöfum aukist mikið.

Aukin eftirspurn eftir faglegum veraldlegum athöfnum við helstu tímamót lífsins sýnir hversu mikilvægt það er að fólk eigi val í þessum efnum. Stór hluti Íslendinga er veraldlega þenkjandi. Flestir hafa þörf fyrir að bjóða upp á virðulega athöfn þegar það á við. Giftingar, útfarir, nafngjafir og manndómsvígslur (fermingar) er sammannlegar athafnir og í grunninn óháðar trúarbrögðum (þó þær séu áberandi í starfsemi flestra trúfélaga).

Athafnir Siðmenntar eru  ekki byggðar trúarlegum forsendum og þær fela ekki heldur í sér neinar hugmyndafræðilegar játningar af neinu tagi. Allir geta nýtt sér þjónustu Siðmenntar, líka þeir sem eru trúaðir og/eða tilheyra trúfélögum, ef þeir af einhverjum ástæðum óska eftir því að halda veraldlega athöfn. Fólk þarf alls ekki að vera skráð í Siðmennt til að nýta sér þjónustu félagsins og það þarf varla að ítreka að Siðmennt fer ekki í manngreinarálit þegar kemur að kynhneigð eða öðrum sérkennum.

Ég hvet sem flesta til að kynna sér bæði athafnaþjónustu Siðmenntar og ekki síður stefnu félagsins. Ég er sannfærður um að stór hluti Íslendinga er sammála meginstefnu Siðmenntar. Því skal haldið til haga að Siðmennt er ekki trúleysisfélag heldur húmanískt lífsskoðunarfélag. Ekki eru allir meðlimir í Siðmennt trúlausir þó flestir séu efasemdamenn og hafi áhuga á að fjalla um siðræn gildi óháð trúarbrögðum:

„Siðmennt byggir starfsemi sína og lífssýn á siðrænum húmanisma (manngildishugsjóninni), sem er lífsviðhorf óháð trúarsetningum. Maðurinn sjálfur er ábyrgur fyrir velfarnaði sínum, ekki „æðri máttarvöld“. Félagið aðhyllist siðrænan, veraldlegan húmanisma sem styður manngildi, sæmd og sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings og rétt hverrar mannveru til að njóta frelsis svo lengi sem það brýtur ekki í bága við rétt og frelsi annarra.

Siðmennt leggur áherslu á persónulegt frelsi mannsins en jafnframt ábyrgð einstaklingsins gagnvart náunga sínum. Félagið stendur vörð um rétt einstaklinga til að þroskast á ólíkum forsendum og hvetur þá til ábyrgðar bæði á eigin velferð og annarra.“

Að auki berst Siðmennt fyrir jafnrétti og fullu trúfrelsi eins og lesa má í trúfrelsisstefnu Siðmenntar og í bréfi sem félagið sendi öllum þingmönnum í október 2013.

Höfundur situr í stjórn Siðmenntar og er athafnarstjóri hjá félaginu

Nánar um Siðmennt:

Deildu