Ó ertu leigjandi? Mér er svoleiðis skítsama!

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

11/02/2014

11. 2. 2014

Ég er í fyrsta sinn á leigumarkaði. Ég bý í dag í íbúð sem ég átti en Landsbankinn eða Hömlur 1 sem er dótturfélag Landsbankans tók af mér síðastliðið vor. Ég grét það ekkert rosalega mikið þar sem ég er ekki sá eini sem hef lent í því að missa eignina ,,mína“. Samkvæmt lögum, sem […]

Ég er í fyrsta sinn á leigumarkaði. Ég bý í dag í íbúð sem ég átti en Landsbankinn eða Hömlur 1 sem er dótturfélag Landsbankans tók af mér síðastliðið vor. Ég grét það ekkert rosalega mikið þar sem ég er ekki sá eini sem hef lent í því að missa eignina ,,mína“. Samkvæmt lögum, sem vonda vinstri stjórnin kom á,  getur sýslumaður ákvarðað að sá sem var eigandi íbúðarinnar og með lögheimili á staðnum fái að búa í íbúðinni í 6 – 12 mánuði eftir að bankinn tekur hana af ,,eigandanum“.

Sýslumaður ákvarðar leigu sem í mínu tilfelli er 95.000 kr á mánuði fyrir utan hita og rafmagn. Ég bý í 70fm tveggja herbergja íbúð. Ég á 6 ára gamla dóttur sem býr hjá mér aðra hverja viku. Ég þarf því húsnæði sem rúmar okkur bæði, aðra hverja viku í það minnsta. Nú fer að líða að því að 12 mánaða fresturinn sem sýslumaður gaf mér í fyrra renni út og ég þarf því að fara að huga að því að finna mér annan samastað. Því fór ég á stúfana og skoðaði helstu auglýsingavefi landsins, mbl.is, visi.is, leiga.is, bland.is og síðan eru leiguhópar inni á Facebook.

Ég þarf varla að taka það fram, því að ég tel að flestir almennir borgarar séu á sömu skoðun, en mér blöskraði leiguverðið. Það er hægt að finna ótal mörg og þá meina ég ótal mörg dæmi um húsnæði í boði á verði sem eru svo gjörsamlega út úr öllu korti. Þegar ég skrifa þetta fann ég á 5 mínútum fullt af mismunandi dæmum um fáranleikan sem er í gangi.

  • 3gja herb, 100fm í Hafnarfirði á 190.000kr. Krafist þriggja mánaða ábyrgðar.
  • 20fm stúdíó íbúð. 60.000 kr.
  • Herbergi til leigu, Breiðholt. 55.000 kr.
  • 10fm herbergi til leigu. 60.000 kr.
  • 10fm herbergi til leigu. 75.000 kr.

Þetta eru fáranlegustu dæmin. Það sem ég er að leita að eru 2 – 3 herbergja íbúðir. Gangverðið á þeim er í kringum 160.000 kr. Yfirleitt er krafist 2 – 3 mánaða leigu í tryggingu og svo á eftir að greiða hita og rafmagn. Ég á ekki rétt á húsaleigubótum nema að mjög litlu leyti, því að ég fyrir það fyrsta er barnið mitt ekki skráð með lögheimli hjá mér, sem er annar fáranleiki og hef ég minnst á í öðrum greinum hér  Skoðun.is.  Í annan stað er ég svo með of háar tekjur! Ég fæ yfirleitt útborgað í kringum 230 – 250.000 á mánuði. Reikningsdæmið gengur því ekki upp.

Samt virðast ráðamenn, hvort sem um er að ræða ríksins eða sveitastjórna, ekki hafa nokkrar einustu áhyggjur af þeim stóra hópi sem eru í þeirri stöðu að þurfa að leigja. Það eru einhverjar óljósar hugmyndir uppi um hvernig skuli bæta úr þessari stöðu sem er á markaðnum. Líkt og oft áður þarf að skipa nefndir til þess að ræða um hvernig best sé að ræða þessi mál innan nefndarinnar sem síðan ræðir málin yfir í aðra nefnd.

Ekki virðast forkólfar launþega í landinu, ASÍ eða aðrir, vera með hugann við þessi mál. Heldur snýst allt um 2% launahækkun og síðan um að rífast innbyrðis.

Það þarf að koma til móts við leigjendur. Það þarf að lagfæra þann aðstöðu mun sem umgengisforeldrar á leigumarkaði búa við. Síðan þarf að koma því þannig við að bankarnir megi leigja út eignirnar sem þeir taka yfir. Ég í það minnsta fékk það svar frá Hömlur 1 í dag að enginn möguleiki væri á að leigja eignina áfram eftir að tíminn minn rennur út því að þeir megi ekki leigja samkvæmt lögum. Sama þótt ég útskýrði stöðuna, að það væri ekki margar eignir í boði, ég á barn sem býr hjá mér og er í grunnskóla í hverfinu og svo margt annað.

Ef versti möguleikinn í stöðunni kemur upp að þá endar það með því að ég þurfi að hætta að vera með dóttur mína aðra hverja viku og fara yfir í það að vera helgarpabbi. Ég þarf þá að flytja inn á einhvern og skerða lífsgæði mín og dóttur minnar, sem á rétt á því samkvæmt lögum að vera í samvistum við mig, allverulega.

Ég vona svo innilega að til þess komi ekki.

Deildu