Samtökin Regnbogabörn lögð niður

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

19/02/2014

19. 2. 2014

Hún sló mig fréttin sem birtust fyrir um það bil tveim vikum síðan um að stofnandi Regnbogabarna, Stefán Karl Stefánsson, hefði tilkynnt að samtökin sem hann stofnaði fyrir 12 árum síðan myndu verða lögð niður og þau gerð upp og öllum styrkjum skilað. Mér brá á nokkrum stigum. Það fyrsta snérist um það að það […]

GráturHún sló mig fréttin sem birtust fyrir um það bil tveim vikum síðan um að stofnandi Regnbogabarna, Stefán Karl Stefánsson, hefði tilkynnt að samtökin sem hann stofnaði fyrir 12 árum síðan myndu verða lögð niður og þau gerð upp og öllum styrkjum skilað.

Mér brá á nokkrum stigum. Það fyrsta snérist um það að það er að mörgu leyti Stefáni Karli og hans þrotlausa sjálfboðastarfi að þakka að ég áttaði mig á því hvað það var sem ég hafði upplifað alla mína grunnskólagöngu. Því að það var þannig að orðið einelti var ekki tamt fólki og hvað þá meiningin á bak við það áður en Stefán Karl steig fram á sjónarsviðið og byrjaði að ræða þessi mál. Hann og Páll Óskar Hjálmtýrsson urðu þess valdandi að ég áttaði mig á hlutunum og gat síðan nokkrum árum síðar farið og unnið úr mínum málum á réttan hátt. Fyrir þar er ég ævinlega þakklátur.

Seinna meir fékk ég tækifæri til þess að fara á vegum Regnbogabarna í grunnskóla, bæði hér í borginni sem og út á land til þess að deila sögu minni með ungmennum. Fyrir það er ég ævinlega þakklátur. Ég hef talað nokkrum sinnum opinberlega um mína sögu og hef löngun til þess að halda því áfram og mun aldrei segja nei sé þess óskað. Mín saga er ekkert verri eða betri en önnur en ég tel að ég hafi eitthvað fram að færa varðandi það málefni sem um ræðir, einelti.

Því hafði ég hug á í byrjun árs 2013 ásamt nokkrum öðrum að setja á stofn hóp/samtök/fræðslu undir nafninu Samkennd. Regnbogabörn höfðu verið í deyfð og lítið í umræðunni og fannst mér eitthvað vanta til að fylla upp í tómarúmið sem var til staðar. Stuttu seinna kom Stefán Karl fram í fjölmiðlum og tilkynnti að starfsemi Regnbogabarna yrði aukin og að þau myndu sækja fram. Það fannst mér frábært. Sá ekki mikinn tilgang í því að reyna troða mér í umræðuna fyrst að þessi vel þekktu og sterku samtök með mikið fylgi og mikinn velvilja í samfélaginu ætluðu sér að verða virk á ný. Myndi ég því frekar beita mér á þann hátt að skrifa pistla hér á Skoðun.is og birta þá.

En þegar þessi tilkynning kom í fjölmiðla varð ég hissa. Ég varð ekki hissa á því að kallað væri eftir aðkomu stjórnvalda að einhverju leyti. Nei ég varð hissa afhverju sú leið var farin að leggja niður samtök sem eru búin að starfa í 12 ár, eru eins og ég nefni fyrr í þessari grein með mikinn velvilja í samfélaginu og eru með ,,vörumerki“ sem er orðið þekkt. Afhverju var þessi leið farin? Afhverju var ekki frekar farin sú leið að óska eftir fólki sem væri tilbúið til þess að axla ábyrgðina á því að halda starfseminni áfram? Mér finnst finnst þetta ofboðslega sorgleg niðurstaða.

Ég er ekki að lasta Stefán Karl og hans vinnu og fólkið sem hefur staðið í þessu með honum. Ég er eins og ég segi afskaplega þakklátur fyrir það sem unnist hefur hingað til en ég hefði kosið að sjá aðra leið farna. Því einelti er svo sannarlega ekki horfið úr samfélaginu okkar og þá er þörf á því að Regnbogabörn séu til staðar, nú eða þá sambærileg samtök. Hver veit nema Samkennd verði að veruleika?

Áfram veginn.

Deildu