Þjóðkirkjan og jafnaðarstefnan: Opið bréf til Árna Páls

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/04/2014

14. 4. 2014

Kæri Árni Páll. Í þættinum Mín Skoðun með Mikael Torfasyni í gær sagðist þú vera á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi yfirlýsing þín hryggir mig því ég tel að ríkiskirkja og öll mismunun vegna trúar- eða lífsskoðana geti ómögulega samræmst jafnaðarstefnunni. Stefnu sem mér þykir mjög vænt um. Ég veit að þú ert trúaður […]

Alþingi og dómkirkjaKæri Árni Páll.

Í þættinum Mín Skoðun með Mikael Torfasyni í gær sagðist þú vera á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi yfirlýsing þín hryggir mig því ég tel að ríkiskirkja og öll mismunun vegna trúar- eða lífsskoðana geti ómögulega samræmst jafnaðarstefnunni. Stefnu sem mér þykir mjög vænt um.

Ég veit að þú ert trúaður og ert sjálfur í Þjóðkirkjunni. Trú þína virði ég að sjálfsögðu auk þess sem ég skil ágætlega að þér þyki vænt um þína kirkju.

Það sem ég get ómögulega skilið er að þú teljir að það sé í lagi að hið opinbera mismuni fólki þegar kemur að trúarbrögðum. Slík mismunun er sjálfgefin á meðan á Íslandi er starfrækt sérstök Þjóðkirkja sem fær sérstakan fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera og nýtur sérstakrar verndar, umfram aðrar lífsskoðanir í almennum lögum og í stjórnarskrá.

Snýst um réttlæti ekki trú
Fyrir mér er enginn grundvallar munur á því að mismuna fólki þegar kemur að trúarbrögðum og lífsskoðunum annars vegar og að mismuna fólki vegna kyns, kynferðis, fötlunar, litarhafts eða stöðu að öðru leyti hins vegar.

Mismunun er mismunun og frjálslyndir jafnaðarmenn eiga að berjast gegn mismunun á öllum sviðum.

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju snýst um réttlæti en ekki trúarskoðanir.

Fyrir stuttu benti ég Brynjari Níelssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem einnig styður Þjóðkirkjuna, á að algengustu rökin fyrir tilveru sérstakrar Þjóðkirkju standast enga skoðun. (Sjá nánar: Nei Brynjar Níelsson, Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla!)

Ég vil freista þess að sannfæra þig um hið sama. Stuðningur minn, og margra annarra frjálslyndra jafnaðarmanna, við Samfylkinguna getur verið í hættu ef formaðurinn er beinlínis á móti fullu trúfrelsi á Íslandi. Það þykir mér leitt enda stendur jafnaðarhugsjónin mér nærri og ég hef hingað til talið að Samfylkingin hafi mikilvægu hlutverki að gegna í íslenskum stjórnmálum.

Í Minni skoðun sagðir þú:

„Ég held það hafi skilað þjóðinni miklu að hafa þetta samband kirkju og kristni í gegnum aldirnar. Ég held að það þurfi að viðurkenna það að Þjóðkirkjan er sérstök stofnun og það eru sérstök rök sem mæla með þessari samfylgd kirkju og ríkis

og

„Við erum öll sprottin úr hugmyndaheimi sem sameinar okkur og það er mikilvægt að við höldum utan um hann.“

Þetta er einfaldlega ekki rétt. Hugmyndaheimur kristinnar trúar sameinar ekki alla Íslendinga af þeirri einföldu ástæðu að við erum ekki öll kristin. Að auki gengur afstaða Þjóðkirkjunnar í ýmsum málum þvert gegn hugmyndum margra um almenn mannréttindi. Má þar nefna afstöðu kirkjunnar til hinsegin fólks eða til þeirra sem aðhyllast engin trúarbrögð.

Þjóðkirkjan er nefnilega alls ekki fyrir alla eins margir hafa reynt að halda fram (Sjá nánar: Biskupinn bullar í Fréttablaðinu).

Ýmsir talsmenn Þjóðkirkjunnar hafa beinlínis talað gegn lífsskoðunum annarra Íslendinga og það á (óvenju háum) launum frá hinu opinbera. Þjónar Þjóðkirkjunnar hafa reglulega komið fram í fjölmiðlum til að benda á að trúleysingjar séu siðlausir, að þeir ógni mannlegu samfélagi auk þess sem þeir eru jafnvel bornir saman við ógnarstjórnir kommúnismans og nasismans. Slíkur málflutningur er ekki viðeigandi frá kirkju sem kennir sig við þjóðina. (Sjá nánar:  Opinber starfsmaður bendlar trúleysingja við ógnarstjórn Stalíns og Fordómar og fáviska ógna mannlegu samfélagi)

Afstaða Þjóðkirkjunnar til hinsegin fólks er því miður ekki til fyrirmyndar heldur. Þjóðkirkjupresta ráða því sjálfir hvort þeir gefa saman fólk af sama kyni, sem þó má gifta sig samkvæmt lögum. Þar að auki tekur hin stjórnarskrárverndað Þjóðkirkja þátt í samstarfi við ýmsar hreyfingar, innlendar sem erlendar, sem breiða reglulega út hatursboðskap gagnvart samkynhneigðum. (Sjá nánar: Má fólk ekki hafa skoðanir?)

Ekki má svo gleyma því að Þjóðkirkan hefur með „samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar“ nánast úthýst þeim sem ekki játa kristna trú. Í þeim segir:

Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.

Það er semsagt í lagi að halda veraldlega tónleika og bingó í kirkjum (sem fjármagnaðar eru með almannafé) en ómögulegt er að leyfa fólki að halda athafnir til að kveðja ástvini eða leyfa pörum að ganga í hjónaband í kirkjum landsins nema athöfnin fari fram í nafni trúar á Jesú Krist. Slík afstaða væri auðvitað í lagi ef að kirkjan fjármagnaði sig sjálf, kallaði sig ekki Þjóðkirkju og nyti ekki sérstakrar verndar umfram aðra í stjórnarskrá.

Samræmist ekki jafnaðarstefnunni
Ég vona, Árni Páll, að þú sjáir að stuðningur við Þjóðkirkju samræmist ekki hugmyndum jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Tilvist ríkiskirkju stríðir beinlínis gegn trúfrelsinu. Þjóðkirkja sem fær meiri fjárhagslegan og lagalegan stuðning frá hinu opinbera en aðrir samræmist að sama skapi varla hugmyndum um jafnrétti. Þegar þjónar sömu kirkju tala og berjast stundum gegn réttindum annarra er varla hægt að segja að hún stuðli að bræðralagi heldur.

Mundu að afstaða til Þjóðkirkju hefur ekkert með trúarskoðanir að gera heldur réttlæti. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er krafa um jafnrétti og trúfrelsi. Krafa um sérréttindi einnar kirkju, sem þjónar ekki öllum, er barátta fyrir sérhagsmunum.

Þar sem jafnaðarmenn berjast venjulega fyrir almannahagsmunum en gegn sérhagsmunum finnst mér eindreginn stuðningur formanns jafnaðarmannaflokks við Þjóðkirkju skjóta skökku við.

Ég hvet þig því hér með til að endurskoða afstöðu þína.

Sigurður Hólm Gunnarsson
Frjálslyndur jafnaðarmaður

Deildu