Blaðaútgáfa og Ísland best

Logo

11/07/2014

11. 7. 2014

Ég las The Times í lesterferð frá Cardiff til London fyrir stuttu og tók þá eftir því hversu mikið og gott lesefni var í blaðinu. Sérstakt 10 síðna blað var t.d. um HM í fótbolta og hafði það nær engar auglýsingar. Svo var að auki fjallað um íþróttir á um 6 síðum. Þess utan mikið […]

Ég las The Times í lesterferð frá Cardiff til London fyrir stuttu og tók þá eftir því hversu mikið og gott lesefni var í blaðinu. Sérstakt 10 síðna blað var t.d. um HM í fótbolta og hafði það nær engar auglýsingar. Svo var að auki fjallað um íþróttir á um 6 síðum. Þess utan mikið af góðum fréttagreinum, innsendum greinum og fleiru.
Ég taldi út auglýsingahlutfallið í The Times og það var 32 síður af 76 eða 42%.

Gæðamunur er á dagblaðaútgáfu hérlendis og víða erlendis

Gæðamunur er á dagblaðaútgáfu hérlendis og víða erlendis

Í morgun skoðaði ég Fréttablaðið og sem endra nær tók ég eftir því hversu mikið var af auglýsingum en lítið af lesefni. Sérstakt blað var um vöruflutningaþjónustu sem var í raun auglýsingablað fyrir þessa þjónustugrein greitt af þessum aðilum. Samtals taldist mér til að 27 síður af 40 væru auglýsingar eða 67.5%. Íþróttir höfðu um 2/3 úr síðu og fréttir og greinar nokkrar síður.

Mér finnst þessi útgáfumennska ekki boðleg hérlendis og það er með ólíkindum að þetta sé „mest lesna dagblað“ landsins. Vissulega er streð að gefa út dagblað og Fréttablaðið er ókeypis en það er dapurleg staðreynd að ekki sé meiri metnaður í blaðmennsku á Íslandi. Áskriftarblaðið Morgunblaðið er líklega eitthvað skárra í þessu hlutfalli auglýsinga/heildarefnis en það hefur svo sterkan pólitískan lit hagsmunagæslu eftir að það féll í hendur nýrra eigenda og nýrrar ritstjórnar að það getur ekki lengur talist þessi ágæti miðill sem höfðaði til flestra landsmanna hér áður fyrr. Það tapaði stríðinu við Fréttablaðið en sigurvegarinn er samt bara útvötnuð peningamylla fyrir einkafyrirtæki sem virðist ekki hafa neinn sérstakan vitrænan metnað með útgáfustarfsemi sinni.

DV er dagblað 3var í viku og hefur að vissu leyti meiri metnað og beittari egg en Fréttablaðið en er enn litað slúðurmennskunni og glannalegum fyrirsögnum. Ýmsir góðir pennar skrifa þar og ekki alltaf þeir sömu eins og Fréttablaðið virðist fast í, en vinnsla greina blaðamanna þar er æði misjöfn. DV hefur möguleika á að breytast í vandaðan miðil en virðist ekki vilja það eins er.

Fréttatíminn er vikublað í dagblaðastíl. Það sekkur sér í sjúklingasögur og raunasögur fólks sem megin forsíðuefni sitt, ekki ólíkt því sem DV hefur löngum iðkað en e.t.v. á heldur smekklegri máta. Sem vikublað nær það ekki að rísa vel sem fréttamiðill og blaðið nær ekki að höfða sérstaklega til mín. Ég myndi ekki kaupa það í áskrift.

Það er dapurt ef að útgáfa dagblaða getur ekki risið hærra en þetta á landinu. Við erum að reyna að vera „stórasta land í heimi“ á ýmsum sviðum og tekst bærilega til víða. Að minnsta kosti sést að einhver metnaður er lagður í hlutina t.d. hjá Össuri, Marel, bókaútgáfu ýmissi, hjá íþróttafólki, hugbúnaðarfyrirtækjum og ýmsu fleiru, en dagblaðaútgáfa er bara í ruglinu. Kannski harður dómur en það er þreytandi dag eftir dag að sjá ókeypis útþynnildi borin út til manns í landi sem berst í bökkum við að halda dýrmætu vinnuafli heima en ekki erlendis þar sem margt laðar að. Hið daglega skiptir máli.

Deildu