Ert þú á móti trúfrelsi?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

10/10/2014

10. 10. 2014

Ef marka má niðurstöður úr nýlegri könnun MMR til afstöðu Íslendinga til þess að mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi virðast margir vera á móti trúfrelsi. Ert þú einn af þeim? Spurt var:„Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að eftirfarandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi? -með trúarbyggingum er átt við byggingar svo […]
Kirkja og moska

Ef marka má niðurstöður úr nýlegri könnun MMR til afstöðu Íslendinga til þess að mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi virðast margir vera á móti trúfrelsi. Ert þú einn af þeim?

Spurt var:
„Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að eftirfarandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi? 
-með trúarbyggingum er átt við byggingar svo sem moskur, hof, kirkjur og musteri.“

Ekki var verið að spyrja hvort hið opinbera ætti að styrkja trúfélög sérstaklega eða hvaða afstöðu fólk hefur til einstakra trúarbragða. Einfaldlega var spurt hvort trúfélög ættu að fá að byggja trúarbyggingar.

Ótrúlega margir virðast vera á móti þeim sjálfsagða rétti trúfélaga að byggja trúarbyggingar og þar með á móti trúfrelsi.

Trúfrelsið, rétt eins og tjáningarfrelsið, snýst ekki um að leyfa bara það sem maður er sjálfur sammála um eða sáttur við. Trúfrelsi snýst um þau grundvallarmannréttindi að fólk megi iðka trú sína í friði fyrir ofríki hins opinbera, svo lengi sem átrúnaðurinn skaðar ekki aðra með beinum hætti.

Nú kann að vera að einhverjir hafi ekki skilið spurninguna og fólk talið sig vera að svara einhverju allt öðru. Eins og því hvaða skoðun það sjálft hefur á einstaka trúarbrögðum eða hvort það telji að ríkið eigi sérstaklega að styðja ákveðin trúarbrögð með því að afhenda lóðir undir byggingar.

Þessi hugsanlegi misskilningur útskýrir samt ekki svörin nægilega vel því afstaða þeirra sem tóku þátt til trúfrelsis virðist vera breytileg eftir því um hvaða trú er verið að ræða. Þannig eru 9.5% á móti því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar en 42,4% á móti því að múslimar fái að byggja sínar byggingar. Rúmlega 33% eru svo á móti því að Rússneska rétttrúnaðarkirkjan fái að reisa sitt guðshús.

Tölurnar sýna að margir byggja afstöðu sína til trúfrelsis á því hversu vel eða illa þeim líkar við mismunandi trúarbrögð eða söfnuði.

Þegar kemur að trúfrelsi virðast margir Íslendingar telja að sumir séu jafnari en aðrir.

Ég sem trúleysingi, húmanisti og baráttumaður fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju (og trúar almennt) vil að allir hafi sama rétt til að reisa sínar trúarbyggingar. Stjórnvöld eiga að tryggja rétt allra til að iðka sína trú í friði og vernda um leið tjáningarfrelsið og veraldlegar stoðir samfélagsins. Veraldlegt samfélag er eina raunhæfa leiðin til að tryggja frelsi og umburðarlyndi í samfélagi* þar sem býr fólk með ólíkar skoðanir.

*Þannig eru auðvitað öll samfélög.

Deildu