Misskilningur á misskilning ofan… varðandi áfengi í matvöruverslunum

Logo

Valgarður Guðjónsson

Valgarður Guðjónsson vinnur við hugbúnaðargerð hjá Staka. Valgarður er söngvari Fræbbblanna og meðlimur í Siðmennt, Vantrú og Sambindinu.Eiginkona Valgarðs er Iðunn Magnúsdóttir, sálfræðingur, og synirnir Andrés Helgi, Guðjón Heiðar og Viktor Orri. Netfang: valgardur@skodun.is

25/10/2014

25. 10. 2014

Það er ansi mikill misskilningur í gangi í umræðunum um hvort leyfa eigi sölu áfengi í matvöruverslunum eða ekki. Og það sem verra er, oft er einn misskilningur er í stöðugri mótsögn við annan. Því ef við skoðum málið þá er þetta nú ekki svo flókið: Fyrir það fyrsta þá kemur engum, hvorki ríkisvaldinu né öðrum, það við […]

Gouda - 20140605 - 212042 - minniÞað er ansi mikill misskilningur í gangi í umræðunum um hvort leyfa eigi sölu áfengi í matvöruverslunum eða ekki.

Og það sem verra er, oft er einn misskilningur er í stöðugri mótsögn við annan.

Því ef við skoðum málið þá er þetta nú ekki svo flókið:

  1. Fyrir það fyrsta þá kemur engum, hvorki ríkisvaldinu né öðrum, það við hvort ég vil neyta vöru sem er á annað borð lögleg.
  2. Þá kemur engum það við hvort og á hvaða tíma einhver kaupmaður vill selja mér ákveðna vöru og hvenær ég vil kaupa, vöru sem er lögleg.
  3. Þá virðist fólk halda að almennt séu Evrópubúar ofurölvi allan daginn vegna þess eins að áfengi fáist í matvöruverslunum. Ég get vottað að það er ekki þannig.
  4. Á sama hátt mætti ganga út frá því að ríki Evrópu séu öll að vinna að því hörðum höndum að færa sölu á áfengi úr almennum rekstri yfir í ríkisreknar verslanir. En það er nú ekki þannig.
  5. Það virðist algeng skoðun að það að meðhöndla vöru (eins og áfengi) sem einhvers konar helgigripi verði til þess að unglingar missi áhuga á neyslu þeirra.
  6. Einhverjir halda að þeir sem eru í vandræðum með neyslu bíði fram á sunnudag með að kaupa. Það er ekki þannig. Þeir sem eru í vandræðum birgja sig upp vel og vandlega, til að vera viss, og eiga svo mikið og þurfa að nota. Þeir sem ekki eru í vandræðum með neyslu gleyma að versla og líða fyrir takmarkanir.
  7. Margir halda að það að nefna einstök dæmi um unglingadrykkju eða drykkjuvandamál séu hluti af málefnalegri umræðu – án þess að skoða önnur tilfelli sem benda til þveröfugrar niðurstöðu, án þess að geta sýnt fram á orsakasamhengi og án þess að opna augun fyrir því að drykkjusiðir hér á landi eru ekki beinlínis til fyrirmyndar. Þetta er ekki nothæf umræða og skilar engu.
  8. Fólk heldur því fram í einu orðinu að núverandi þjónusta sé til fyrirmyndar og framboð og þjónusta við sölu áfengis sé með því besta hér á landi – og í hinu orðinu að góð þjónusta og mikið framboð sé skelfileg og bein ávísun á unglingadrykkju.
  9. Margir virðast vera búnir að gleyma nákvæmlega sömu umræðu áður en (heimskulegu) bjórbanninu var aflétt og virðist ekki ætla (eða vilja) læra af reynslunni.
  10. Þá eru þeir sem tala um þetta sem „lýðheilsumál“ (man einhver eftir bjórumræðunni?). Mögulega hafa þeir hinir sömu hitt á mikilvægt atriði þarna. En bara með öfugum formerkjum. Það er ekki magn áfengis sem skiptir máli, heldur vandamálin sem fylgja áfengisneyslu. Skyldu þau vera mest í þeim löndum sem selja áfengi í matvöruverslunum. Nei, þvert á móti.
  11. Þá eru þeir sem halda því fram að þjónusta myndi skerðast við það að færa þessa verslun úr ríkisforsjá. Þeir hinir sömu ættu þá frekar að berjast fyrir því að verslun með nauðsynjavörur verði ríkisvæddar, þeas. ef þeir raunverulega trúa því að betri þjónusta fáist með ríkisrekstri þá væri auðvitað miklu mikilvægara að það fyrirkomulag nái yfir nauðsynjar.
  12. Ef þessi þjónusta sem ríkið veitir stendur ekki undir sér, þá erum við að niðurgreiða reksturinn úr ríkissjóði, og það hlýtur að vera misskilningur að niðurgreiða rekstur vínbúða úr ríkissjóði (já, ég veit að áfengisskatturinn er tekjulind fyrir ríkissjóð, en hann verður það áfram).
  13. Sumir virðast halda að þeir þurfi nauðsynlega að hafa vit fyrir okkur til að vernda okkur fyrir ljótu kaupmönnunum sem komi til með að troða ofan í okkur áfengi sem við viljum ekki.
  14. Þá eru þeir sem halda að enginn drekki áfengi í öðrum tilgangi en að verða ölvaður. Þetta er kannski stóri misskilningurinn í málinu. Við erum nefnilega til, og það nokkuð mörg, sem kjósum frekar bjór eða rauðvín en eitthvert sykur-gos-sull. Ekki áhrifanna vegna, heldur vegna þess að þetta er svo miklu betra á bragðið. Og sennilega hollara (í hófi, eins og svo margt annað).

Sem sagt, ekkert svo flókið.

Deildu