Vér mótmælum allir! … en á fæðingardaginn minn kona góð!?

Logo

19/06/2015

19. 6. 2015

Fólk virðist skiptast nokkuð í tvö horn varðandi mótmælin á Austurvelli á Sautjándanum. Sumir segjast skammast sín fyrir samlanda sína að sýna deginum þessa óvirðingu en aðrir segjast skilja þetta vel og að Jón Sigurðsson forseti hefði verið stoltur af mótmælendum á fæðingardegi sínum þar sem málefnið sé mikið réttlætismál, líkt og sjálfstæðisbaráttan. Vér mótmælum […]

Fólk virðist skiptast nokkuð í tvö horn varðandi mótmælin á Austurvelli á Sautjándanum. Sumir segjast skammast sín fyrir samlanda sína að sýna deginum þessa óvirðingu en aðrir segjast skilja þetta vel og að Jón Sigurðsson forseti hefði verið stoltur af mótmælendum á fæðingardegi sínum þar sem málefnið sé mikið réttlætismál, líkt og sjálfstæðisbaráttan. Vér mótmælum allir! sagði hann jú þegar hann átti bara að vera þægur og prúður á fundi. Fundurinn var þó ekki í tilefni fagnaðar eða stórra hátíðahalda líkt og Sautjándinn.

Lengi vel var 17. júní ósnertanlegur dagur. Hið dýrmæta sjálfstæði var svo ferskt og nýtilkomið að öll leiðindi og hörð lífsbarátta fengu ekki að skyggja á daginn. Þetta var á tímum feðraveldisins og fyrir tíma rannsóknarblaðamennskunnar. Fólk hafði sterka tilfinningu fyrir því sem var kurteist og innan þeirra marka. Svo mikið að það var jafnan niðurleitt og gat vart stunið upp orði lenti það í óvæntu fréttaviðtali. Fólk hafði minni lúxus en við höfum í dag og það var upplífgandi að finna til stolts yfir afrekum kaldrepinnar þjóðar og syngja saman gamalrómantísk ættjarðarljóð. „Ísland þúsund ár!“ hlóð eflaust batteríin og samstaðan var svo mikilvæg. Svo kom frjálsræðið og krítarkortin. Glæpatíðni og dópneysla óx og hjaðnaði á ný á 20 árum og það var komin 21. öldin. Tvær kynslóðir ólust upp við ræðukeppnir. Stjórnmálamenn voru teknir með allt niður um sig í fréttaþáttum og bloggi. Gamlir veggir og helg svæði, t.d. trúarkreddur og biskupar voru einnig tekin með allt niður um sig – og það bókstaflega. Sjálfskipuð virðing fyrir yfirvaldi er ekki lengur til staðar. Það hófst tími „vigilanta“ – sjálfsprottinna varðmanna sem pósta á netinu og skipuleggja mótmæli. Stundum af nauðsyn, virkilegri nauðsyn, en stundum af því það er bara orðinn vani að væla og væla lengi og væla hátt. „113 Vælubíllinn svarar“ – komum á Austurvöll! Upp úr þessu spruttu Píratar, stríðnir stjórnmálapúkar sem kunna að rökræða og gefa ekki afslátt af þeim málum réttlætis sem þeir berjast fyrir.  Þeir eru tilbúnir að æpa Yeh, félagi! við góðum málum óháð flokkslínum, jafnt frá FramSjálfó eða VinSamfó eða fyrrum Hraunurum.  Einlægni og kjaftæðislaus hegðun Píratanna er að skila sér í áður óþekktri fylgisaukningu smáflokks á þingi. Flokksdráttaflokkarnir og Bjartsýnir hafa sent þetta í gagnagreiningu en skilja ekki hvað í ósköpunum er að gerast.

Tákrænt fyrir ástandið? Þjóðarskrjóðurinn á hvolfi á meðan börnin horfa á og Alþingi er í viðgerð.

Tákrænt fyrir ástandið? Þjóðarskrjóðurinn á hvolfi á meðan börnin horfa á og Alþingi er í viðgerð.

Eftir búsáhaldabyltinguna er það orðin lenska að mótmæla með því að skemma ræðuhöld þeirra sem fara með stjórnvölinn. Fjárhagshrunið ýtti fólki út fyrir óskrifuð landamæri virðingar gagnvart stjórnvöldum þannig að Austurvöllur varð stríðsvöllur en ekki völlur fagnaðar. Alþingi hefur ekki tekist að tala til fólks á mannamáli og virða neyð stétta í kjarabaráttu (þrátt fyrir að ausa skattfé í stórfelldar lánaleiðréttingar). Þannig viðhelst reiðin og virðingarleysi stjórnvalda er svarað með virðingarleysi á öllum tímum, á stað fólksins sama hvað er í gangi. Þetta finnst mér vera skýringin og það að mótmæla á þjóðhátíðardeginum, degi gleði og samfagnaðar, er kannski það sem þarf til að vekja upp stjórnvöld til endurskoðunar. Hættan er ef til vill sú að glundroði og óeining verði til þess að hleypa kergju í deilandi aðila og þjóðin verði lengur í erjum en þörf er á. Það er vissulega staður og stund fyrir allt, líka mótmæli, en það er spurning hvenær nauðsyn brýtur þau óskráðu lög. Mikið væri gott að losna við lögregluveggi og girðingar á Austurvelli en hvað þarf til?

Þarf að skoða hvort að stjórnmálakerfið bjóði upp á valdasjúka pólitíkusa með eiginhagsmuni falda á bak við stórkarlaleg kosningaloforð eða þarf að skoða hvort að fólk sem mótmælir á Austuvelli sé vanþakklátt pakk án sómakenndar sem tekur gerviþarfir sínar fram yfir hátíð sjálfstæðis þjóðarinnar? Þarf að skoða hvort tveggja og svo miklu fleira. Stór hluti þjóðarinnar lagðist í naflaskoðun á því hver væru „gildin okkar“ eftir Hrunið og fallegir listar orða og aðgerða voru settir á loft. Fóru þeir kannski bara upp á háaloft og sáust ekki meir? Forsetinn gaf beiðni um siðareglur fyrir embættið fingurinn langa. Ný stjórnarskrárdrög voru drepin og sulturinn í fólkinu kaus Framsókn og Sjálfó. Sulturinn losnaði undan IceSave og heyrði „satt sagt“ að útlendingarnir (kröfuhafarnir) myndu svo borga niður lánin þeirra. Satt reyndist að við sjálf skiptum peningum úr vösum hvors annars til að greiða niður lánin. Nú er annar „sigurinn“ í ausuna kominn með því að blóðmjólka þá útlendinga sem fjárfestu hér í góðæri og vilja gerast svo ósvífnir að leysa út peningana sína í erlendum gjaldeyri. Afnám gjaldeyrishafta heitir það. Þetta þykir aðdáunarvert á alla kanta þó að það glitti í svona í aukasetningu að þeir kynnu að lögsækja ríkið.

Sulturinn vaknaði af ósóma 2-3% launahækkana eftir skerðinguna 2008. Kennarar og læknar fengu feitar leiðréttingar. Aðrir vildu það sama en töluðu fyrir daufdumbum eyrum án táknmáls. Alþingismenn skilja ekki einu sinni táknmál, ekki einu sinni þegar fólk deyr á biðlistum hjartaaðgerða eða æpa hljóðlátt úr sér lungun á biðlista eftir brjósklosaðgerð. Einn sjúklingur liggur bókstaflega alla daga með innyflin úti til þess eins að tala slíku táknmáli til stjórnvalda en því miður hefur ekki fengist fé fyrir táknmálstúlk þannig að hann er „in cognito“, bara núll, bara tala á lista, sem líta má á hagfræðilegum augum. Lög voru sett á verkföll BHM og nokkurra heilbrigðistétta vegna ófremdarástands. Hvaða ófremdar? Hvoru megin girðingar og lögregluvarðar? Eigum við öll að skammast okkar og þá yfir hverju? Sitt mun hverjum sýnast en verum þó viss að makríllinn mun veiðast vel á geðveikt flottum frystitogurum vors lands og þjóðar. Brosa svo, konur eiga 100 ára afmæli kosningarréttar síns!

Deildu