Málstola mælskumaður

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/10/2018

23. 10. 2018

Ég hef stundum sagt frá því opinberlega að ég hafi glímt við þunglyndi og ofsakvíða. Ekki til að fá vorkunn eða athygli. Það er afar takmarkaður áhugi á slíkum viðbrögðum. Mér hefur þó alltaf þótt mikilvægt að ræða geðræn veikindi opinskátt enda á enginn að þurfa að skammast sín fyrir geðræn veikindi frekar en líkamleg. […]

Ég hef stundum sagt frá því opinberlega að ég hafi glímt við þunglyndi og ofsakvíða. Ekki til að fá vorkunn eða athygli. Það er afar takmarkaður áhugi á slíkum viðbrögðum. Mér hefur þó alltaf þótt mikilvægt að ræða geðræn veikindi opinskátt enda á enginn að þurfa að skammast sín fyrir geðræn veikindi frekar en líkamleg.

Af skiljanlegum ástæðum er samt viðkvæmara að opinbera að maður sé stundum grátandi heima hjá sér í þunglyndis- eða ofsakvíðakasti en að segja frá því að maður sé bakveikur eða með flensu. Það er einfaldlega persónulegra að vera veikur á „sálinni“. Þess vegna tilkynna margir veikindi til vinnuveitanda og segjast vera með flensuna frekar en að segja frá því að þeir séu í þunglyndiskasti.

En hvað um það? Nú langar mig að fjalla aðeins um einn fylgikvilla þess að vera með þunglyndi og kvíða og það eru lyfin og áhrifin sem þau geta haft á notendur.

Sum okkar sem erum með kvíða og þunglyndi þurfum að taka lyf. Lífsnauðsynleg lyf sem kosta stundum fáránlega mikið rétt eins og heimsóknir til geðlækna og sálfræðinga. Um kostnaðinn hef ég rætt áður* en nú vil ég ræða um aukaverkanirnar. Margir hafa heyrt um algengar aukaverkanir eins og þyngdaraukningu, þyngdartap, kyndeyfð, orkuleysi, sljóleika, skapgerðarbreytingar og ýmislegt annað.

Í leit minni að bata hef ég í samráði við lækna prófað alls konar lyf og lyfjablöndur með misjöfnum árangri og misjöfnum aukaverkunum. Lyfin sem ég er á núna virðast hjálpa mikið til við að draga úr bæði þunglyndi og sérstaklega ofsakvíðaköstum, sem er auðvitað frábært. Vandinn er að lyfin sem ég er á núna hafa augljósar aukaverkanir sem eru ekki eins frábærar. Fyrir það fyrsta virðist ég ekki vera eins fljótur að hugsa og ég var áður. Mér líður eins og ég hafi lækkað um ca 30 greindarvísitölustig. Það er í sjálfu sér í lagi. Greind er ofmetin. Hún er í það minnsta ekki eins mikilvæg og almenn vellíðan.

Önnur aukaverkun fer þó meira í taugarnar á mér og það er málstolið. Ég hef almennt átt auðvelt með að tjá mig á almannafæri og líklegast er ég svolítið þekktur samfélagsgagnrýnandi og nöldrari. En ekki lengur. Nú á ég oft í miklum erfiðleikum með að tala við fólk. Stundum er málstolið það mikið að ég stama gífurlega (eitthvað sem ég hef aldrei gert áður) og stundum get ég alls ekki sagt það sem ég er að hugsa. Þegar ég næ svo að segja eitthvað hljóma ég eins og ég sé drukkinn (sem ég er ekki) eða lyfjaður (sem ég vissulega er). Ég hef sagt mörgum, aðallega þeim sem ég treysti ágætlega, frá líklegri ástæðu fyrir málstoli mínu og allir sýna því mikinn skilning. Ég nenni þó ekki að útskýra aðstæður mínar fyrir öllum og því eru líklega margir sem telja að ég sé daglega drukkinn eða á einhverjum ólöglegum efnum. Sú tilhugsun fer illa í mig.

Vonandi get ég fundið betri lyfjablöndu í samráði við lækninn minn svo ég geti endurheimt sjálfsmynd mína. En ef ekki þá verð ég bara að sætta mig við að vera málstola mælskumaður. Það er margt verra en það.

*

Allir græða á gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi

Geðveikur kostnaður í sjúku heilbrigðiskerfi


Hugleiðing dagsins: Málstola mælskumaðurÉg hef stundum sagt frá því opinberlega að ég hafi glímt við þunglyndi og…

Posted by Sigurdur Holm Gunnarsson on Þriðjudagur, 23. október 2018

Deildu