Jólin: Tími ljóss, friðar og væntumþykju

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/12/2018

21. 12. 2018

Flest höldum við brátt jól og stuttu síðar fögnum við áramótum. Sumir halda jól á trúarlegum forsendum en aðrir ekki. Ég aðhyllist lífsspeki sem kallast siðrænn húmanismi. Ég er trúlaus í þeim skilningi að ég aðhyllist ekki skipulögð trúarbrögð né trúi ég í blindni á yfirnáttúruleg fyrirbrigði. Eins og flestir húmanistar held ég þó jól […]

Flest höldum við brátt jól og stuttu síðar fögnum við áramótum. Sumir halda jól á trúarlegum forsendum en aðrir ekki. Ég aðhyllist lífsspeki sem kallast siðrænn húmanismi. Ég er trúlaus í þeim skilningi að ég aðhyllist ekki skipulögð trúarbrögð né trúi ég í blindni á yfirnáttúruleg fyrirbrigði. Eins og flestir húmanistar held ég þó jól rétt eins og ég fagna áramótum og hef góðar ástæður fyrir því.

Heiðin jól

Það vita það ekki allir að hugtakið „jól“ er heiðið að uppruna. Kristið fólk ætti í raun að halda upp á „Kristsmessu“ (eins og í Christmas) en ekki jól. Orðið jól er íslenskun á „yule“ sem má rekja til heiðninar enda hélt heiðið fólk hátíð á þessum tíma og eitt af mörgum nöfnum Óðins var „Jólfaðir“.

En það er ekki bara hugtakið sem er heiðið. Hátíðin sem slík er mun eldri en kristin trú. Þann 25. desember fagnar kristið fólk fæðingu frelsarans Jesús Krists. En það var líklega ekki fyrr en árið 354 sem Líberíus biskup í Róm ákvað að 25. desember yrði gerður að opinberum fæðingardegi Jesú. Þess er hvergi getið í Biblíunni hvaða dag Jesús fæddist og engar aðrar heimildir til um þann viðburð.

25. desember og nærliggjandi dagar voru þó áður fæðingardagar eldri frelsisguða (sjá nánar: Fæðingu sólarinnar fagnað).

Hátíð sólarinnar

Upphaflega má þó rekja jólahátíðina til náttúrunnar. Jólin er í raun sammannleg hátíð sólarinnar sem síðar var breytt í kristilega hátíð. Til forna fögnuði menn og konur „fæðingu hinnar ósigruðu sólar“. Þessi hátíðarhöld breyttust svo smá saman í hátíð í tilefni af „fæðingu hins ósigraða sonar“.

Í dag 21. desember klukkan 22:23 er dagur stystur og nóttin lengst en eftir það fer dag að lengja á norðurhveli jarðar. Þessi tímamót kallast vetrarsólstöður og eiga sér stað alltaf á tímabilinu 20. til 23. desember ár hvert. Á meðan júlíanska tímatalið var notað frá ca árinu 46 f.Kr til 1700 voru vetrarsólstöður einmitt 25. desember. Þá var fæðingu sólarinnar (og hinna ýmissu sólguða) fagnað með tilheyrandi hátíðarhöldum, skreytingum, gjöfum og matarboðum. Vetrarsólstöður eru nefnilega hin eiginlegu áramót.

Sammannleg hátíð

Fyrir mér eru jólin hátíð okkar allra. Sama hverrar trúar eða lífsskoðunar sem við erum. Okkur gefst tækifæri til að gera okkur glaða daga með vinum og fjölskyldu.

Jólin minna okkur á að allt hefur sinn tíma og að hver stund sem við eigum með hvort öðru er dýrmæt. Því miður hefur þessi hátíð stundum snúist of mikið um veraldlegar gjafir, um að allt sé hreint og fínt og að allt eigi að vera fullkomið. Þetta hefur valdið óþarfa streitu og óhamingju. Þessi krafa um fullkomnleikann veldur því líka að fólki sem líður ekki vel vegna aðstæðna sinna getur liðið enn verr á þessari annars gleðihátíð (Sjá nánar: Pössum okkur á jólakúguninni).

Munum að innilegt faðmlag er dýrmætara en dýr pakki. Fallega skrifað jólakort er meira virði en fullkomin jólasteik og raunveruleg væntumþykja til náungans allt árið skiptir meira máli en nokkurra daga hátíð einu sinni á ári.

Gleðileg jól!

Höfundur er formaður Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi

Deildu