Það er dýrt að spara í velferðarmálum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/11/2019

18. 11. 2019

Það kostar að tryggja jöfnuð, tækifæri og samkennd í samfélaginu en það kostar meira að búa í samfélagi ójöfnuðar því aukinn ójöfnuður mun alltaf skapa upplausn í samfélaginu, óhamingju og aukna glæpi. Allir tapa á slíku samfélagi, ríkir sem fátækir.

Flestir Íslendingar eru sammála því að við sem samfélag eigum að tryggja velferð í landinu. Allir eiga að hafa aðgang að góðu heilbrigðiskerfi. Það á að gera vel við öryrkja, aldraða og málefni barna eiga að vera í forgrunni. Á tyllidögum og fyrir kosningar eru allir stjórnmálamenn sammála þessu. 

Þegar kemur að efndum er raunin svo oft önnur. „Þetta kostar of mikið“ er algeng mantra gegn velferðarþjónustu sem fjármögnuð er í gegnum sameiginlega sjóði. Slík afstaða er í sjálfu sér rökvilla því einblínt er á aðra hlið jöfnunnar. Þegar grannt er skoðað þá kostar það í raun ekkert fjármagn að tryggja öfluga velferðarþjónustu. Til lengri tíma græðir samfélagið allt fjárhagslega á velferð. 

Það er enginn skortur á fagfólki á Íslandi en það virðist oft skorta á viljan til að verja nauðsynlegu fjármagni í velferð.

Þar strandar annars vegar á stjórnmálamönnum en ekki síður á sumum kjósendum sem alls ekki vilja borga hærri skatta eða sækja skatta til þeirra sem eiga nóg af peningum.

Fólk kýs oft flokka sem boða skattalækkanir og vilja alls ekki tryggja að samfélagið fái ríkari hlut í sameiginlegum auðlindum. Sumir flokkar vilja meira að segja afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga til að búa til „samkeppni“ um íbúa.

Slík samkeppni getur aldrei skilað neinu nema skertri þjónustu til þeirra sem þurfa sannarlega á aðstoð samfélagsins að halda.

Samfélagið tapar ekki fjármagni sem varið er í velferð heldur græðir
Það kostar vissulega að bjóða upp á öfluga og gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu en við græðum öll á því að fólk leiti sér aðstoðar strax og öðlist bata fljótt og örugglega. Heilbrigður einstaklingur skapar meiri verðmæti en sjúkur.

Það kostar að mennta almenning. Góðir skólar eru rándýrir. Upplýstir einstaklingar skapa þó að jafnaði meiri verðmæti en hinir fáfróðu.

Það kostar að vernda náttúruna, að rafvæða bílaflotann og að draga úr loftmengun. Það kostar samt miklu meira að hundsa náttúruna. Ef okkur er sama um móður náttúru er henni sama um okkur. 

Það kostar að tryggja jöfnuð, tækifæri og samkennd í samfélaginu en það kostar meira að búa í samfélagi ójöfnuðar því aukinn ójöfnuður mun alltaf skapa upplausn í samfélaginu, óhamingju og aukna glæpi. Allir tapa á slíku samfélagi, ríkir sem fátækir.

Velferð kostar vissulega en kostnaðarhlið jöfnunnar segir aðeins hálfa söguna og oft tæplega það. Gróðinn sem fylgir velferð er nánast án undantekningar meiri. Ekki bara í peningum talið. Við bætist aukin hamingja, aukið öryggi og minni vansæld. Við græðum öll á bættum samfélagsgæðum.

Peningar í sjálfu sér skipta ekki máli. Peningapólitík er því í senn gagnslaus, fjandsamleg og heimskuleg. Stundum hamingjupólitík í staðinn. Þá munu allir græða.

Deildu