Framboð til stjórnar Siðmenntar

Framboð til stjórnar Siðmenntar

Ég heiti Sigurður Hólm Gunnarsson og er fæddur 1976. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í stjórn Siðmenntar á aðalfundi félagsins sem fram fer 24. apríl næstkomandi. Ég er iðjuþjálfi að mennt en starfa sem forstöðumaður hjá Barnavernd Reykjavíkur. Ég hef verið félagsmaður í Siðmennt í um 20 ár og tekið virkan þátt í að móta félagið og kynna það fyrir almenningi.

Í þá tvo áratugi sem ég hef tekið virkan þátt í Siðmennt, oftar en ekki í stjórn félagsins, hafa áherslur mínar að mestu snúist um húmanísk gildi. Má þar nefna trúfrelsi, mannréttindi, umburðarlyndi, gagnrýnin hugsun, samtal og skilningur milli ólíkra menningarheima og baráttan fyrir veraldlegu samfélagi. Að auki er ég athafnastjóri hjá Siðmennt þó ég hafi tekið að mér fáar athafnir, aðallega fyrir vini og vandamenn. Einnig hef ég unnið mikið með Hope Knútsson, stofnanda félagsins, og aðstoðað hana með ýmislegt í tengslum við borgarlega fermingu. Ég tel athafnaþjónustu Siðmenntar gríðarlega mikilvæga en viðurkenni að ég er fyrst og fremst í Siðmennt af því ég er húmanisti og vil fjalla um veraldleg og húmanísk gildi, trúfrelsi og almenn mannréttindi.

Fljótlega eftir að ég hóf að starfa með Siðmennt í kringum aldamót ritaði ég nokkuð ítarlega Trúfrelsisstefnu Siðmenntar. Í þeirri stefnu kom skýrt fram hvað fælist í raunverulegu trúfrelsi.
(Sjá: http://sidmennt.is/trufrelsi/trufrelsisstefna/)

Ég átti einnig ríkan þátt í því að koma því í gegn að Siðmennt fengi stöðu sem skráð lífsskoðunarfélag árið 2013. Sú vegferð hófst með umsókn sem ég ritaði ásamt Gísla Gunnarssyni til dómsmálaráðherra í júní 2002.
(Sjá: https://skodun.is/2013/01/30/veraldleg-lifsskodunarfelog-loksins-vidurkennd-barattumal-sidmenntar-i-naer-13-ar/ )

Í gegnum árin hef ég margsinnis komið fram í fjölmiðlum og ritað greinar um hin ýmsu mál sem tengjast Siðmennt og húmanismanum. Flest af því sem ég hef fjallað um má lesa á vefsíðu minni https://skodun.is.

Verkefni næsta starfsárs

Að mörgu þarf að huga á næsta starfsári. Fyrir utan að koma hefðbundinni starfsemi af stað. Veita viðurkenningar, halda málþing, senda umsagnir, kynna félagið í fjölmiðlum og halda áfram að þróa og styrkja veraldlegar athafnir þarf að bregðast við ýmsu sem fylgir stækkandi félagi. Ég tel brýnt að undirbúa lagabreytingar fyrir aðalfund 2020 og rita verklags- og siðareglur fyrir starfsmenn, stjórn og athafnastjóra Siðmenntar.

Mikilvægt er að farið sé vandlega yfir öll útgjöld og launamál félagsins og tryggja að allt sem gert er sé unnið af fagmennsku og yfirvegun þannig að útkoman sé sem best fyrir félagið og komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra. 

Lögum félagsins verður að breyta. Ég nefni hér tvennt en fleira þarf nauðsynlega að bæta en auðvitað þarf að gera fleiri breytingar.

1. Laga þarf alla lagaumgjörð í kringum aðalfundi til að tryggja að þeir fari vel fram og séu lýðræðislegir.

2. Líklega er svo nýleg túlkun Þjóðskrár um að stofnunin haldi ekki eiginlegar félagaskrár fyrir trúar- og lífsskoðanafélög rétt. Hjá Þjóðskrá getur fólk valið að láta „sóknargjöld“ sín renna í trúar- eða lífsskoðunarfélag að eigin vali. Með því er fólk ekki að skrá sig formlega í félag. Félögin sjálf eiga að halda eigið félagatal. Þetta tel ég að sé rétt og góð túlkun.

Siðmennt berst gegn sóknargjaldakerfinu og hefur alla tíð verið á móti því að hið opinbera haldi skrá yfir trúfélagsaðild fólks. Því þarf að breyta lögum þannig að aðeins þeir einstaklingar sem:

a) skrá sig einungis í félagið beint og borga félagsgjald eða

b) eru sannarlega skráðir hjá Þjóðskrá og skráðir beint í félagið – séu kjörgengir í félaginu.

Þeir sem velja leið b ættu ekki að þurfa að greiða félagsgjöld. Til að fá afslætti hjá félaginu ætti að vera nóg þó að vera bara skráður hjá Þjóðskrá. Þannig bregðumst við bæði við túlkun Þjóðskrár og hvetjum fólk um leið að skrá sig beint í Siðmennt. Þegar og ef sóknargjaldafyrirkomulagið verður afnumið er einmitt gríðarlega mikilvægt að sem flestir séu skráðir beint í félagið en ekki bara í skrá hjá Þjóðskrá sem enginn hefur aðgang að.

Ég býð fram krafta mína til að vinna að þessum verkefnum og öðrum í góðri samvinnu veljist ég í stjórn.

Greinar og umfjöllun um húmanisma, trúfrelsi og Siðmennt

Hér má lesa/hlusta/horfa á umfjallanir mínar um ýmis mál sem tengjast Siðmennt og húmanisma:

Sigurður Hólm Gunnarsson

Facebook athugasemdir